English

Ný gjaldskrá Nasdaq verðbréfamiðstöðvar í kjölfar sameiningar við Nasdaq CSD. Tekur gildi 25.05.2020.

4.5.2020

Þann 25. maí nk. áætlar Nasdaq verðbréfamiðstöð að ljúka fyrirhugaðri sameiningu við verðbréfamiðstöð Nasdaq CSD SE og innleiða nýtt verðbréfamiðstöðvakerfi. Við samrunann mun starfsemi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar færast yfir í útibú Nasdaq CSD SE sem mun starfa hér á landi undir íslenskum lögum og eftirliti Seðlabanka Íslands. Útibú Nasdaq CSD á Íslandi mun áfram styðja við útgefendur fjármálagerninga og þátttakendur að verðbréfamiðstöðinni og taka þátt í uppbyggingu á innlendum fjármálamarkaði en á sama tíma kappkosta að útvíkka þjónustuframboðið og taka beinan þátt í uppbyggingu sameinaðrar verðbréfamiðstöðvar Nasdaq í Evrópu. Sameiningin mun gera okkur kleift að bjóða viðskiptavinum upp á ný tækifæri og nýjar vörur, en framundan eru spennandi tímar í starfsemi okkar sem munu hafa víðtæk áhrif til hins betra fyrir alla viðskiptavini okkar.Frá og með samrunanum við Nasdaq CSD munu taka gildi nýjar gjaldskár annars vegar fyrir útgefendur og hins vegar reikningsstofnanir sem eru þátttakendur í Nasdaq verðbréfamiðstöð. Ný gjaldskrá fyrir þátttakendur inniheldur m.a. eftirfarandi atriði:

 

-          Gjöld vegna vörslu verðbréfa (e. Management fee) verða óbreytt. Frá og með 1. september verður lagt á lágmarksgjald á opna reikninga sem ætlað er að hvetja þátttakendur til að loka reikningum sem ekki eru í notkun.

 

-          Gjald vegna uppgjörs á fyrirmælum vegna verðbréfaviðskipta með afhendingu verðbréfa gegn greiðslu peninga (e. Delivery-versus-payment, DvP) mun lækka miðað við núgildandi gjaldskrá.

 

-          Gjöld vegna bakvinnslutengingar (BOC) og notendaleyfi vegna skjásetuaðgangs munu falla niður. Í stað þess verður innheimt mánaðargjald vegna aðildar ásamt gjaldi fyrir tengingu við kerfi verðbréfamiðstöðvarinnar. Þátttakendum verður boðið upp á að stofna gjaldfrjálst ótakmarkaðan fjölda notendaaðganga. Árgjöld þátttakenda verða innheimt hlutfallslega samkvæmt núgildandi gjaldskrá fram að fyrstu mánaðarmótum eftir lok samruna við Nasdaq CSD. Frá og með þeim mánaðarmótum mun ný gjaldskrá taka gildi.

 

Ný gjaldskrá fyrir útgefendur mun gilda frá og með samruna við Nasdaq CSD og tekur að stóru leyti mið af eldri gjaldskrá:

-          Gjöld vegna útgáfu verðbréfa (e. Maintenance fee) verða óbreytt. 

 

-          Ársfjórðungslegt gjald verður innheimt vegna verðbréfa sem eru á tímabundnum verðbréfareikningum (e. Temporary securities accounts) í kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar. Tímabundnir verðbréfareikningar munu koma í stað reikninga sem stofnaðir hafa verið á hlutlausa svæðinu ef eigandi verðbréfa á ekki vörslureikning hjá reikningsstofnun. Gjaldtaka mun hefjast frá 1. september nk.

 

-          Samhliða breyttri og bættri þjónustu í tengslum við framkvæmd fyrirtækjaaðgerða verða breytingar á gjaldtöku. Nasdaq verðbréfamiðstöð mun á næstunni kynna fyrir útgefendum breytingar á þjónustu vegna fyrirtækjaaðgerða en m.a. verður boðið upp á:

 

  • Útreikning á arðgreiðslum fyrir hluthafa og dreifingu á greiðslum í gegnum kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar
  • Greiðslu og dreifingu á afborgunum af skuldabréfum í gegnum kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar

 

-          Breytingar verða gerðar á gjöldum vegna innleiðingar á nýju hluthafakerfi, ESIS. Aðgangur að kerfinu í gegnum vefviðmót verður útgefendum að kostnaðarlausu en innheimt verður sérstakt gjald fyrir aðgang í gegnum vefþjónustu. Gjald verður tekið fyrir fyrirspurnir samkvæmt gjaldskrá en útgefendum gefst kostur á að sækja um að greiða fast árgjald þar sem ótakmarkaður fjöldi fyrirspurna fylgir.

 

Innheimta mun fara fram mánaðarlega og ársfjórðungslega og verða reikningar sendir út að tímabili loknu.

Vegna fyrirspurna um þjónustu Nasdaq verðbréfamiðstöðvar, gjaldskrá eða fyrirkomulag gjalda vinsamlegast hafið samband með tölvupósti í gegnum netfangið csd.iceland@nasdaq.com.