English

Nasdaq verðbréfamiðstöð inn í nýja tíma

22.12.2016

Starfsemi verðbréfamiðstöðvar á Íslandi hófst árið 2000, en fyrir þann tíma voru öll hlutabréf og skuldabréf gefin út á pappírsformi og réttindin yfir þeim rituð á bréfið sjálft. Við sölu þurfti því að rita framsal á verðbréfið og koma því í efnislegu formi til kaupanda. Við stofnun verðbréfamiðstöðvarinnar varð mikil breyting á verklagi frágangs og uppgjörs verðbréfaviðskipta en við rafræna skráningu gefur útgefandi verðbréfaréttindin út rafrænt og þar með hverfur þörfin fyrir skráningu á pappírsformi.  Meginhlutverk verðbréfamiðstöðvarinnar er að annast útgáfur verðbréfa, halda utan um skráningu réttinda í verðbréfamiðstöðvarkerfi og hafa milligöngu um uppgjör verðbréfaviðskipta í samstarfi við Seðlabanka Íslands.  Við upphaf starfseminnar voru bæði Kauphöllin og Verðbréfamiðstöðin í eigu markaðsaðila en árið 2006 var eignarhaldsfélagið selt og er nú í eigu Nasdaq kauphallasamstæðunnar sem veitir þjónustu á fjármálamörkuðum á alþjóðavísu.   

Fyrirkomulag eignaskráningar á Íslandi er svipað því sem tíðkast á Norðurlöndunum. Flestir fjárfestar eru skráðir beint fyrir verðbréfaeign sinni í verðbréfamiðstöð en á öðrum mörkuðum er algengara  að fjármálafyrirtækin haldi utan um eign viðskiptavina sinna á reikningi í nafni fjármálafyrirtækisins í verðbréfamiðstöð, svokölluðum safnreikningi. Þrátt fyrir beina eignaskráningu, eru fjárfestar ekki í viðskiptum við verðbréfamiðstöðina, heldur fjármálafyrirtæki, sem hefur heimild til að annast rafrænar verðbréfaeignir ásamt því að gera upp viðskipti fyrir hönd viðskiptavina sinna. Þeir sem fjárfesta í rafrænum verðbréfum, t.d. þeim sem skráð eru í kauphöll, þurfa  að gera vörslusamninga við fjármálafyrirtæki sem hefur milligöngu um eignaskráningu og uppgjör viðskiptanna í verðbréfamiðstöð.    

Nasdaq verðbréfamiðstöð gegnir mikilvægu hlutverki á íslenskum fjármálamarkaði og starfsemi hennar og hlutverk er annað en fjármálafyrirtækjanna. Kerfi verðbréfamiðstöðva teljast til kerfislegra mikilvæga innviða á fjármálamarkaði og rekur Nasdaq verðbréfamiðstöð verðbréfauppgjörskerfi, sem er viðurkennt í samræmi við lög nr. 90/1999 um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum.

 

Nýtt regluverk og breytt starfsumhverfi

Regluverk um starfsemi verðbréfamiðstöðvarinnar grundvallast á lögum frá árinu 1997. Að teknu tilliti til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað á fjármálamörkuðum og í ljósi gjörbreytts tækniumhverfis hefur skapast brýn þörf á því að endurskoða lögin. Regluverkið eins og það stendur í dag á að takmörkuðu leyti við um starfsemi verðbréfamiðstöðva nútímans.  

Árið 2014 var sett reglugerð í Evrópu um starfsemi verðbréfamiðstöðva (CSDR) sem ætlað er að stuðla að auknu öryggi og samræmingu reglna og verklags í tengslum við verðbréfauppgjör. Reglugerðin er hluti af viðamikilli endurskoðun á regluverki fjármálamarkaða í kjölfar fjármálakreppunnar og gerir auknar kröfur til starfsemi og skipulags verðbréfamiðstöðva t.d. hvað varðar óhæði stjórnar, notendanefnd, eiginfjárkröfur og áhættustýringu svo eitthvað sé nefnt. Að auki eru gerðar samræmdar kröfur varðandi tiltekna þætti verðbréfauppgjörs sem ætlað er að auka aga og tryggja að sömu meginkröfur séu gerðar til allra þátttakenda í verðbréfauppgjöri í Evrópu. Evrópskar verðbréfamiðstöðvar þurfa að sækja um nýtt starfsleyfi á grundvelli reglugerðarinnar og geta að því veittu boðið þjónustu sína yfir landamæri í Evrópu. Undirbúningur innleiðingar CSDR reglugerðarinnar er hafinn á Íslandi og sækir Nasdaq verðbréfamiðstöð um nýtt starfsleyfi á grundvelli hennar. 

 

 

Alþjóðlegt samstarf til hagsbóta fyrir markaðsaðila

Verðbréfamiðstöðvar í Evrópu eru því um þessar mundir að búa sig undir breytingar á starfsemi sinni.  Til viðbótar við þær breytingar sem fylgja tilkomu CSDR undirbúa fjölmargar verðbréfamiðstöðvar í Evrópu sig einnig undir að tengjast samræmdu verðbréfauppgjörskerfi (Target2Securities -T2S) sem rekið er af Seðlabanka Evrópu. Nú þegar hafa allflestar verðbréfamiðstöðvar sem gera upp viðskipti í evrum tengst T2S. Kerfið gerir þeim sem eru aðilar að því kleift að gera upp viðskipti í gegnum Seðlabanka Evrópu og hámarka þannig öryggi í uppgjöri. Kerfinu er sömuleiðis ætlað að lækka uppgjörs – og fjármagnskostnað fjárfesta og auka samkeppni á milli verðbréfamiðstöðva, sem munu geta boðið útgefendum verðbréfa þjónustu yfir landamæri.  Innviðir fjármálamarkaðar á Íslandi munu ekki gerast aðilar að T2S í náinni framtíð og því mun uppgjör verðbréfa í íslenskum krónum enn um sinn fara fram í Seðlabanka Íslands. Það sama á við um sænska og norska markaðinn, hvorugur hefur tilkynnt um þátttöku í T2S.  Danska verðbréfamiðstöðin VP hefur hins vegar tilkynnt þátttöku og áætlar að kostnaður við innleiðingu á kerfi sem tengst getur T2S sé yfir 25 milljónir evra.

Í september 2017 fyrirhugar Nasdaq að sameina þrjár verðbréfamiðstöðvar sem samstæðan rekur í Eystrasaltsríkjunum í eina og tengja hana við T2S uppgjörskerfið. Hin sameinaða verðbréfamiðstöð verður þá búin að sækja um nýtt starfsleyfi og breyta starfseminni í samræmi við kröfur CSDR.  Margar af þeim kröfum sem settar eru fram í CSDR eru íþyngjandi fyrir lítinn verðbréfamarkað eins og þann íslenska og ljóst er að miklar og kostnaðarsamar breytingar þurfa að eiga sér stað í eftirviðskiptaumhverfinu á Íslandi til þess að uppfylla kröfurnar. Það er því mikill fengur fyrir Nasdaq verðbréfamiðstöð að eiga kost á samstarfi við verðbréfamiðstöðvar Nasdaq í Eystrasaltsríkjunum, sem munu innleiða nýtt verðbréfauppgjörskerfi og verklag í samræmi við CSDR á undan Nasdaq á Íslandi.  Sú samvinna mun leggja grunn að þeirri vinnu sem framundan er við að þróa eftirviðskiptamarkaðinn á Íslandi frá úreltu séríslensku verklagi í átt að nútímanum og staðlaðra verklagi í takti við það sem þekkist á öðrum norrænum mörkuðum.      

 

Höfundur: Þóra Björk Smith, forstöðumaður rekstrarsviðs Nasdaq verðbréfamiðstöðvar.