English

Breytingar framundan…

21.7.2017

Central Securities Depository Regulation eða CSDR var innleidd í Evrópusambandinu árið 2014 og á árinu 2016 hófst vinna við innleiðingu hennar á Íslandi sem er áætlað að ljúki um mitt næsta ár.

Markmið CSDR er að samþætta lög, reglur og markaðsvenjur á evrópskum markaði til að ná fram eins samræmdu innra skipulagi og hægt er á verðbréfamörkuðum Evrópu.  Sem dæmi um samræmingu má nefna að uppgjörstími verðbréfa hefur verið samræmdur í Evrópu og fer uppgjör nú fram tveimur dögum eftir að viðskipti hafa gerð á flestum mörkuðum í Evrópu.

CSDR hefur meiriháttar breytingar á starfsemi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar.  Sem dæmi má nefna að ekki er heimilt að vera eingöngu með fulltrúa eiganda í stjórn eins og nú er, 1/3 hluti stjórnarmanna skal vera óháður og að lágmarki 2 stjórnarmenn.  Nasdaq verðbréfamiðstöð verður skylt að koma á fót notendanefnd sem samanstendur af fulltrúum útgefenda og reikningsstofnana.  Nefndin getur veitt ráðgjöf varðandi skipulag rekstrar, gjaldskrá og á þjónustu fyrirtækisins og er sjálfstæð í störfum sínum. 

Krafist er aukinna varfærniskrafna í starfsemi verðbréfamiðstöðva í CSDR þrátt fyrir að engin fordæmi séu fyrir því að verðbréfamiðstöð hafi farið í þrot í gegnum tíðina.  Sem dæmi má nefna að áhættustýring í starfsemi verðbréfamiðstöðva er aukin og ber fyrirtækinu að skipa sérstakan áhættustjóra og verður skylt að taka út fyrirkomulag áhættustýringar af sjálfstæðum endurskoðanda á tveggja ára fresti.  FME verður skylt að taka út starfsemina með skoðun einu sinni á ári.   Eiginfjárkröfur verðbréfamiðstöðvar breytast og taka mið af þeirri áhættu sem fólgin er í starfseminni.   Verðbréfamiðstöðinni verður skylt að vera með ítarlega endurskipulagningar- og endurreisnaráætlun (recovery and resolution) sem tekur til mismunandi sviðsmynda.

Til að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar þarf Nasdaq verðbréfamiðstöð að innleiða nýtt verðbréfamiðstöðvakerfi.

Undirbúningur fyrir útskiptingu kerfis hófst á síðasta ári og er stefnt að innleiðingu nýs kerfis í samvinnu við markaðsaðila og Seðlabanka í lok maí 2018. 

Allt verklag við skráningu rafrænna bréfa, uppgjör þeirra og umsýslu verður tekið til gagngerrar endurskoðunar.  Því er um einstakt tækifæri að ræða til að hverfa frá séríslensku verklagi og þróa verðbréfauppgjör og umsýslu til samræmis við staðlað verklag og í takti við bestu framkvæmd erlendis.

Nasdaq verðbréfamiðstöð og Seðlabanki Íslands hafa verið að skoða hvaða möguleikar eru í boði varðandi uppgjör og metið hvaða kostir og gallar fylgja hverri aðferð til að átta sig á því hvað hentar best á íslenskum markaði.  Niðurstaða liggur ekki fyrir en reiknað er með að hún líti dagsins ljós í haust og er áætlað að hún verði kynnt markaðsaðilum á sameiginlegum fundi.

Í dag er notað BIS módel 2 fyrirkomulag í uppgjöri þar sem verðbréf eru gerð upp hvert fyrir sig en peningahluti uppgjörsins er nettaður í Seðlabanka.  Verðbréfamiðstöðin hefur hug á því að fara yfir í BIS módel 1 fyrirkomulag í uppgjöri sem 35 verðbréfamiðstöðvar af 41 nota í Evrópu.  Í því módeli eru  sérhver viðskipti gerð upp gegn greiðslu og engar nettanir eiga sér stað.  Áætlað er að kauphallarviðskipti flæði beint inn í kerfi verðbréfamiðstöðvar til uppgjörs eins og var gert hér á árum áður og að markaðsaðilar tilkynni til verðbréfamiðstöðvar önnur viðskipti sem gerð eru utan kauphallar.   Pörun mun eiga sér stað inn í nýja kerfinu þ.a. núverandi TRS pörunarbox hverfur af markaði.   Horfið verður frá nettun peningahluta uppgjörs eins og nú er heldur verða sérhver viðskipti gerð upp.  Hægt verður að gera upp fyrir þriðja aðila inn í nýja kerfinu sem þýðir að vörsluaðilar þurfa ekki að vera mótaðilar viðskipta heldur geta þeir gert upp viðskipti undirliggjandi viðskiptavina við aðra uppgjörsaðila gegn greiðslu.   Ekkert hlutlaust svæði verður til eftir innleiðingu nýs kerfis og þurfa allar færslur að vera paraðar sem þýðir að millifærslur verðbréfa í gegnum hlutlausa svæðið eins og nú tíðkast verða aflagðar með öllu.   Hægt verður að gera upp viðskipti með og án greiðslu samdægurs.  CSDR reglugerðin kveður á um að uppgjör skuli fara fram að lágmarki þrisvar sinnum á dag.  Uppgjörsaðilar sjá stöðu viðskipta sinna í verðbréfakerfinu og mun verðbréfamiðstöðin staðfesta við markaðsaðila öll viðskipti sem eiga sér stað og sendir yfirlit yfir peningahreyfingar með stöðluðum samskiptamáta ISO15022/20022.  Nýja kerfið athugar hvort næg verðbréfa- og peningastaða sé fyrir hendi áður en uppgjör er keyrt og keyrir eins mikið af pöruðum fyrirmælum og það getur.  Ef ekki er næg staða þá færist uppgjör viðskiptanna í næsta hring.

Nýtt kerfi hefur verið kynnt fyrir flestum markaðsaðilum og hefst vinna við innleiðinguna af fullum krafti um miðjan ágúst og eru prófanir með markaðsaðilum áætlaðar í lok október.

Nasdaq samstæðan sem starfar á yfir 50 mörkuðum út um allan heim á verðbréfastöðvar í Lettlandi og Litháen sem eru að taka lokaskrefið í innleiðingu sams konar kerfis og verður innleitt á Íslandi.  Nasdaq verðbréfamiðstöðin í Eistlandi hefur notað kerfið með góðum árangri síðastliðin sex ár.    Nasdaq verðbréfamiðstöð mun njóta góðs af þeirri vinnu sem þar hefur farið fram og mun fá ráðgjafa sem unnu við innleiðinguna þar til að aðstoða hér á landi og sú reynsla sem þeir koma með mun klárlega spara tíma og mannafla til hagsbóta fyrir fyrirtækið og markaðinn í heild.

Nasdaq verðbréfamiðstöð lítur jákvætt á þær breytingar sem framundan eru því með nýju verðbréfamiðstöðvakerfi gefst fyrirtækinu tækifæri til þess að auka og bæta þjónustuna frá því sem nú er í samvinnu við viðskiptavinina.